Námsumhverfi leikskólans

Námsumhverfi barna

Börn læra og þroskast í gegnum leik og fá þannig nýjar áskoranir, til þess þarf að skapa gott námsumhverfi og skapandi aðstæður fyrir þau. Með því að skipuleggja námsumhverfi og viðfangsefni barna út frá kenningum Mihaly Csikszentmihalyi  leggjum við grunninn að því að börnin læri að þekkja sig sjálf, móta sína eigin sjálfsmynd og finna út sín áhugasvið. Í góðu námsumhverfi læra börn að hafa stjórn á sínu eigin lífi, axla ábyrgð á gjörðum sínum og láta ekki erfðir, menningu eða aðra einstaklinga hafa áhrif á líðan sína. Kennarar hafa mikil áhrif á nám barna og þess vegna er mikilvægt að við sköpum námsumhverfi þar sem öllum börnum er mætt á þeirra forsendum. Þannig gefum við þeim tækifæri til að hafa áhrif á eigið nám. Mihaly hefur fjallað um styrkleika stýrðs uppeldis. Hann segir að börn læri á sína styrkleika ef þau fá að ráða viðfangsefnum, skipta um þegar þeim hentar og leita að þeim sjálf.

Samkvæmt Mihaly Csikszentmihalyi þarf að huga að nokkrum þáttum í námsumhverfinu svo að barn komist í flæði:

Efniviður – Hann þarf að vera opinn og bjóða upp á skapandi hugsun. Í starfi Rauðhóls er notast við opinn efnivið sem býður ekki upp á fyrirfram ákveðnar lausnir heldur krefst hann hugmyndaflugs og sköpunar hjá börnunum. Opinn efniviður eins og kubbar, leir, vatn, sandur, málning, litir, skæri o.fl. bjóða ekki upp á fyrirfram ákveðnar lausnir eins og hefðbundin leikföng gera oft.

Samskipti – Virðing og virk hlustun eru mjög mikilvægir þættir því að kennararnir geta verið mikil hindrun í að barn komist í flæði og líði vel. Viðmót starfsfólks skiptir máli og það þarf að spyrja sig að því hvort það sé hamlandi eða ýti undir styrkleika og áhugasvið. Þátttaka barna í ákvarðanatöku er mikilvæg, að barnið hafi rödd og á það sé hlustað. Í Rauðhól er stuðst við og unnið eftir hugmyndafræðinni Uppeldi sem virkar – Færni til framtíðar. Þar er áhersla lögð á jákvæðan aga í uppeldi með skýrum skilaboðum, ákveðnum mörkum, virkri hlustun og mikilvægi fyrirmynda. Þessi aðferð leiðir af sér að komið er í veg fyrir hegðunarerfiðleika, börnum er hjálpað að þróa með sér öryggi, sjálfstæði og jákvæðni.

Skipulag – Sveigjanleiki verður að vera til staðar í dagskipulaginu og grípa þarf öll tækifæri sem gefast til náms. Börnin ráða ferðinni og hugmyndir þeirra fá að þróast. Því er gengið út frá því í skipulagi starfsins í Rauðhól að leikurinn sé eitt mikilvægasta tjáningarform barna. Leikurinn felur í sér sköpun þar sem börnin koma fram á eigin forsendum, opna sig og takast á í samskiptum. Í öllu skipulagi leikskólans er lögð áhersla á að leikurinn fáið notið sín sem best í leikskólanum, því er honum gefinn mikill tími og rými.

Umhverfi – Frjáls leikur þarf bæði tíma, rými og næði. Allt starf Rauðhóls snýst um að hafa uppbyggjandi og hvetjandi umhverfi bæði fyrir börn og starfsfólk. Umhverfið þarf í senn að vera örvandi og þroskandi fyrir barnið og lagt er upp úr því að hafa umhverfið þægilegt og aðlaðandi fyrir leik. Fjölbreytni er mikil í umhverfi leikskólans og ýtir undir þroska og sköpunargleði barnanna.

Námsumhverfi starfsfólks

„Ef stefna skólans slær ekki í takt við hjarta þitt ber hún lítinn sem engan árangur“.

Mihaly segir að bestu stundirnar sem við eigum séu ekki stundirnar þar sem við erum í afslöppun eða aðgerðarlaus heldur þær sem reyna á okkur og láta okkur ná markmiðum. Það skiptir máli að upplifa með öðrum og það veitir hamingju. Í starfsumhverfinu þurfa að skapast tækifæri fyrir starfsfólk til að það geti nýtt sína styrkleika. Þannig kemst starfsfólk í flæði í vinnunni með því að sökkva sér í viðfangsefni sem það hefur áhuga á. Í Rauðhól er krafist sjálfstæðis af starfsfólki og því er gefið umboð til athafna. Starfsfólkið fær svigrúm til að feta nýjar leiðir og þróa og bæta sig í starfi. Þegar starfsfólk fær að vinna út frá sínum styrkleikum eykst ánægja og streita minnkar. Áhugi og gleði smitar út frá sér til barnanna.

Samtal tveggja drengja í skólahóp: Það er ótrúlega gaman í leikskólanum út af því að við fáum súkkulaðikex. Nei það er út af kennurunum!