Um Rauðhól

Helsta einkenni leikskólans Rauðhóls er sveigjanlegt dagskipulag. Í leikskólanum er engin skipulögð dagskrá, einu föstu liðirnir eru matmálstímar. Þó eru þeir líka með fremur sveigjanlegu ívafi. Í Rauðhól keppast bæði starfsfólk og börn við að grípa hugmyndir og tækifæri dagsins og vinna með þau og þróa. Mikil gæska, gleði, húmor og samkennd einkennir starfsandann í Rauðhól. Starfsfólk fær tækifæri til að nýta styrkleika sína í starfi og hefur það áhrif á starfsánægju og minnkar streitu. Þegar kemur að skipulagi deildarinnar er lesið bæði í barnahópinn og starfsmannahópinn þar sem aðstæður eru metnar og svigrúm myndað til sveigjanleika og frumkvæðis að verkefnum og tækifærin eru gripin jafnvel án undirbúnings.

Námskrá leikskólans Rauðhóls felur meðal annars í sér að elta hugmyndir barnsins. Að barnið fái að hafa eitthvað um það að segja hvernig dagurinn verður, fái tækifæri til að skipta um verkefni og geti þannig dvalið lengur við ákveðin verkefni sem höfða til áhugasviðs þess. Við vinnum með opinn efnivið bæði á deildum og í Björnslundi og eru einingakubbar eitt aðalleikefni leikskólans. Ígrundað er vel hvort efniviður henti hverju aldursskeiði fyrir sig þar sem kennarar bera virðingu fyrir umhverfinu og efniviðnum. Mikilvægt er að gefa leiknum tíma og rými í starfinu dags daglega þar sem börnunum er skapað næði. Börnin eru samt ekki afskiptalaus því kennari er til staðar þar sem hann fylgist með leiknum og grípur inn í ef með þarf.

Mikil áhersla er lögð á náttúru og útivist sem stuðlar að heilbrigði og vellíðan barnanna og skapar jafnframt aukna nýtingu á bæði inni- og útisvæði skólans. Leikskólinn er umkringdur frábærri náttúru sem býður upp á fjölmörg tækifæri til könnunar og uppgötvunar. Allir grunnþættir í aðalnámskrá leikskóla eru kenndir í útikennslu á Rauðhól. Hvort sem það er að efla fínhreyfingar með því að fara í berjamó eða þræða spotta í gegnum sprek, styrkja þol og jafnvægi með klifri eða efla félagsfærni í samverustundum við eldstæðið.

Virk hlustun er notuð í samskiptum við börn og starfsfólk þar sem börnin eru hvött til að tjá eigin skoðanir sem ýtir undir þroska þeirra. Börnin finna að þeim er treyst en jafnframt að það sé góður agi. Við teljum mikilvægan þátt í okkar starfi að börnin tileinki sér sjálfstjórn.Við leggjum áherslu á að öll börn fá jöfn tækifæri til að þroskast og dafna á eigin forsendum. Börnin fá tækifæri til þess að læra af reynslunni og eflast og styrkjast til þess að verða sjálfstæðir og hamingjusamir einstaklingar.

Forystusýn Rauðhóls

Að hafa fjölbreyttan hóp stjórnenda sem rökræðir og kryfur ólíka sýn á starfið er góður kostur til að efla leiðtogahæfni stjórnendateymis. Stjórnendur leggja áherslu á að styðja hver annan og ná með rökræðum að skapa sameiginlega sýn á starfið. Stjórnandi þarf að geta lagt mat á eigin starfshætti en jafnframt að hlusta og virða skoðanir annarra.

Með jákvæðni og virðingu sýnum við fram á að við erum fyrirmyndir í öllu starfi á deildunum og erum meðvituð um það. Að vera þolinmóður, sýna umburðarlyndi og hrósa samstarfsfólki er stór þáttur í að vera fyrirmynd í starfi. Ástríða fyrir starfinu ásamt því að fylgja ákveðinni uppeldissýn og kennsluaðferðum er stór þáttur í þessum efnum.

Deildarstjórar leggja áherslu á að efla sjálfstraust starfsmanna sem eru á deildinni hjá þeim og hafa jákvætt viðhorf til þeirra. Þeir leggja áherslu á að lesa í styrkleika starfsfólks og hlusta á það þannig að það geti notið sín og þróað sína styrkleika í starfi því starfsfólk er með ólíka menntun og bakgrunn og mikilvægt að geta nýtt sér það í starfi innan leikskólans. Einnig ýta þeir undir að starfsmenn eigi frumkvæði að verkefnum og þjálfist í að finna verkefni sem hæfir hverjum aldri fyrir sig.

Stjórnendur sýna starfsfólki virðingu og áhuga ásamt því að bera traust til þess með því að gefa starfsfólki tækifæri til að miðla sinni reynslu til samstarfsfólks og efla um leið eigin leiðtogahæfni. Leitast er við að finna uppbyggilegar leiðir til að starfsfólk geti þróað sig áfram.

Mikilvægt er að stjórnendur efli sig í starfi og sæki sér símenntun með því að fara á ráðstefnur, sækja fyrirlestra, námskeið og endurmenntun. Starfsmenn þurfa að fá tækifæri til að ögra sér í starfi og fá aukna ábyrgð til að viðhalda eigin starfsánægju.

(Forystusýn Rauðhóls var unnin undir leiðsögn Dr. Örnu H. Jónsdóttur frá Menntavísindasviði. Forystusýnin mun birtast í heild sinni í nýrri námskrá Rauðhóls sem er í vinnslu).