Björnslundur

Skógarhúsið í Björnslundi

Björnslundur er skógarlundur sem er náttúrulegt útivistarsvæði sem þjónar íbúum hverfisins, Norðlingaskóla og leikskólanum Rauðhól. Skógarhúsið opnaði 14. apríl 2009. Björnslundur er ein deild leikskólans og nýtist með þeim hætti að eldri deildir leikskólans skiptast á að vera þar ýmist dag eða viku í senn. Björnslundur við Elliðabraut í Norðlingaholti er í lundi Björns Ófeigssonar kaupmanns. Björn nefndi lundinn Grenilund og reisti vandaðan bústað og gróðursetti plöntur í kringum 1940.

Skógarhúsið er ein af 10 deildum Rauðhóls og þar dvelja 24 börn ásamt kennurum á hverjum virkum degi. Skógarhúsið er ekki ólíkt sumarbústað og þar er allur búnaður sem þarf fyrir útikennslu og daglegt starf í leikskólanum. Í Björnslundi eru engar girðingar og börnin læra hvar þau mega vera í frjálsum leik. Kennarar nota bjöllu sem börnin heyra í og koma þá hlaupandi að húsinu og kennarar telja barnahópinn. Í Björnslundi er hægt að fara á gönguskíði, tálga, elda úti, rækta, sulta, baka, drullumalla, dansa við tónlist úti á palli, klifra og leika í trjánum. Börnin fara með kennara að ná í hádegismatinn í annað húsnæði leikskólans og taka mikinn þátt í daglegum verkum í skógarhúsinu. Starfsfólkið hefur verið duglegt að leggja inn verkefni sem börnin taka þátt í að þróa eins og verkefni um fugla, árstíðirnar, lífríkið í skóginum og ýmis verkefni tengd plöntum og ræktun. Mörg ævintýri eiga sér stað í Björnslundi.

Hvað gerir þú í Björnslundi? Barnið segir: „Klifra í trjám og fara á leynistaðinn, það er rosalega hræðilegt þar, maður getur dottið, þá er maður að standa á greininni og hún skoppar svona“.

Fræðsla um útikennslu

Útikennsluráðstefna var haldin í skógarhúsinu í Björnslundi 18. maí 2009. Þetta var samstarfsverkefni háskólans í Bergen, Háskóla Íslands, Norðlingaskóla og Rauðhóls. Áhersla var lögð á hvernig nýta má útikennslu í öllum námsgreinum.

Leikskólinn Rauðhóll tók þátt í starfendarannsókn sem heitir „Á sömu leið“ sem unnin var á vegum Rannung ásamt Norðlingaskóla. Rannsóknin hafði það markmið að stuðla að samstarfi leik- og grunnskólakennara og auka tengsl skólastiganna og skapa þannig samfellu í námi ungra barna. Unnið var með bernskulæsi, frjálsan leik og útikennslu í Björnslundi.

Ólafur Oddsson verkefnastjóri verkefnisins „Lesið í skóginn“ hefur verið með námskeið fyrir kennara og foreldra meðal annars um tálgun og skógrækt í Rauðhól. Ólafur er uppeldisráðgjafi að mennt og starfar sem fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins og hefur um árabil unnið að skógrækt og skógaruppeldislegum verkefnum og námskeiðshaldi fyrir almenning og í samvinnu við ýmsar menntastofnanir.