Flæði

Mihaly Csiksentmihalyi setti fram hugmyndafræði um flæði og bjó til hugtakið flæði (e. flow). Hann er kallaður faðir flæðis. Mihaly er ungverskur sálfræðiprófessor en hann lærði í Bandaríkjunum. Kenningar hans eru flokkaðar sem samskiptakenningar og er hann sérfræðingur í sköpunargleði, hamingju og jákvæðri sálfræði. Hann bendir á að við sækjumst eftir því að fara í flæði því það veitir okkur hamingju og gleði og ekkert annað skiptir okkur máli á meðan, við erum alveg tíma- og áhyggjulaus.

Samkvæmt kenningum Mihaly er flæði þær stundir þegar við njótum okkar best. Einstaklingurinn er svo niðursokkinn í athöfn að ekkert annað kemst að, verkefnið á hug hans allan og hann gleymir jafnvel stund og stað. Hlutirnir virðast gerast án áreynslu og hæfileikar hans eru fullnýttir. Reynslan sem einstaklingurinn öðlast í þessu ferli er svo gefandi að hann leggur töluvert á sig til að upplifa hana aftur. Hægt er að skapa aðstæður eða ástand þar sem líklegra er að einstaklingur geti upplifað flæði, en þá má verkefnið sem hann tekur sér fyrir hendur hvorki vera of létt né of erfitt. Þannig viðheldur það áhuga hans. Mikilvægt er að hafa skýr markmið vilji maður ná fram flæði. Ekki vegna þess að það eitt og sér að ná markmiðum sé mikilvægt heldur vegna þess að án markmiða reynist mörgum erfitt að einbeita sér og forðast truflanir (Csikszentmihalyi, 1997).

Það er einmitt hamingjan og gleðin sem fylgir henni sem er svo sérstakt við flæðið. Við sækjum í að fara í flæði. Þá erum við að leita í áhugamálin okkar eins og íþróttir og listsköpun eða í gegnum vinnuna okkar og nám. Þetta er ákveðið hugarástand og er nátengt því hvernig okkur líður. Flæðið verður á mörkum þess þegar færni og geta er há. Við þurfum smá áskoranir. Þegar færnin er mikil og ákorunin einnig þá náum við að komast í flæði. Ef að bestu mögulegu aðstæður fyrir flæði væru alltaf til staðar myndu einstaklingar stöðugt vera að þroskast á meðan þeir myndu njóta þess sem þeir tækju sér fyrir hendur. En því miður myndast þessar aðstæður allt of sjaldan. Það kemur að því einhverra hluta vegna að einstaklingum fer að leiðast og þeir hafa ekki áhuga á því að finna ný verkefni sem kalla á athyglina. Það kallar á orku að búa til góða reynslu sem þarf að hafa fyrir að ná fram. Mihaly nefnir einmitt að við þurfum hvíld inn á milli.

79acc8fe382b93f10728d3a43e61630a

Hvernig líður okkur í flæði?

  1. Þú finnur að markmiðin eru skýr. Þú veist nákvæmlega að hverju þú stefnir.
  2. Þú færð strax endurgjöf. Þú finnur hvort þér gengur vel eða ekki.
  3. Þú verður að geta lokið verkefninu og þá þarf jafnvægi milli áskorunar og getu.
  4. Þú verður að geta einbeitt þér að því sem þú ert að gera.
  5. Þú ert laus við áhyggjur daglegs lífs. Finnur t.d. ekki fyrir svengd, leiða eða þreytu.
  6. Þér finnst þú hafa stjórn á því sem þú ert að gera.
  7. Tímaskynið þitt breytist, klukkutímar verða eins og mínútur.
  8. Umhyggja fyrir sjálfinu hverfur, en sjálfið kemur sterkar fram á eftir.

20190215_114553 - afrit

Auðveldast er að finna flæði með spilum, skák og öðrum leikjum sem fela í sér vissar reglur og skýr markmið. Leikmaðurinn þarf ekki að hugsa hvert næsta skref er því reglurnar segja manni til hvers sé ætlast. Leikmaðurinn fær strax svörun og vill vita hvernig honum miðar áfram með verkefnið.