Örsögur

Hér að neðan koma nokkrar örsögur af upplifun starfsfólks í Rauðhól af flæði. Allt starfsfólk svaraði tveimur spurningum um þeirra upplifun í flæði og hér má sjá nokkur svör.

Fyrri spurningin var: Ef þú hefur upplifað flæði í vinnu með börnunum, við hvaða aðstæður gerist það?

„Mín upplifun af flæði í leik barnanna er að þau setja sjálf kröfur á sig frekar en við  [kennararnir]. Mér finnst að þetta aukna frelsi barnanna sem fylgir flæðinu gefi þeim meira rými til að efla sjálfstraustið og móta sjálfsmyndina sína. Þau komast sjálf að styrkleikum sínum og geta unnið með þá meira með flæði í leik.“

„Mér finnst ég upplifa flæði í vinnunni á hverjum degi. Bæði hjá starfsfólki sem nýtur sín í kennslu og leik sem börnin dragast inn í og hjá börnum sem hafa bæði frelsið og stuðninginn til þess að gleyma sér í leik, söng, myndlist o.s.frv.“

„Þar sem ég er að sinna áhugasviði mínu.“

„Helst ef barnið er í aðstæðum þar sem rými og næði er til staðar og efniviðurinn sem er í boði höfðar til barnsins.“

„Þegar ég var með hóp sem í sameiningu ákvað viðfangsefni og allt í einu voru allir búnir að gleyma stað og stund og varði í langan tíma. Dásamleg stund að upplifa og ánægjutilfinning sem ég upplifði sterkt.“

„Þegar ákveðin innlögn frá mér skilar sér í skapandi, frjóum, sterkum einstaklingum sem flæða og hafa óbilandi trú á sjálfum sér.“

„Ég á það til að gleyma mér sjálfri í skemmtilegum leikjum. Ég sé að flestir starfsmenn eru meðvitaðir um að koma börnunum í flæði eða að trufla þau ekki þegar þau eru komin á gott ról.“

„Ég upplifi flæði í starfi nær daglega. Í listsköpun, hlutverkaleik og einingakubbum gleymi ég oft stund og stað ásamt barnahópnum. Fyrir hver jól fá börnin að velja jólagjöf sem þau gefa foreldrum sínum. Ein jólin vildi stelpa gefa foreldrum sínum dúkku. Hún hannaði bæði dúkkuna ásamt fötum sem hún klæddi dúkkuna í. Flæðið sem ég upplifði með stelpunni var ótrúlegt. Áhugi hennar á verkefninu skein í gegnum alla vinnuna. Og útkoman var svo falleg dúkka sem hún gaf foreldrum sínum stolt.“

Seinni spurningin var: Hvað gefur flæði þér í starfinu?

„Að hlakka til að koma í vinnuna, fá frjálsræði til að þróa og skapa hugmyndir. Takast á við krefjandi verkefni.“

„Starfsmannahópurinn vinni að sameiginlegum verkefnum sem gefa öllum tækifæri til að flæða í sínu áhugasviði.“

„Mjög mikla ánægju og hlýju í hjartað. Það er svo dásamlegt að upplifa flæði og upplifa flæði hjá nemendum sínum. Því ef maður sér og veit að þau ná að upplifa flæði í sínu námi þá líður þeim vel hjá okkur, þau læra og njóta þess að vera til.“