Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar
Leikskólinn Rauðhóll hlaut styrk í maí 2018 frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkur fyrir þróunarverkefni sem heitir „Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar“. Áherslur þróunarstyrkja að þessu sinni voru í samræmi við nýja Menntastefnu Reykjavíkur þ.e. sjálfsefling, vellíðan og skapandi hugsun barna. Með vinnu í tengslum við þróunarverkefnið viljum við auðvelda starfsfólki að skapa námsumhverfi þar sem öllum börnum er mætt á þeirra forsendum. Það verður gert m.a. með því að skoða og greina námsumhverfi og samskipti. Þannig er börnunum gefið tækifæri til að hafa áhrif á eigið nám sem eykur gleði og sjálfstæði þeirra og kallar fram flæði. En flæði eða „flow“ er hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi sem er einn af frumkvöðlum jákvæðrar sálfræði. Með því að innleiða hugmyndafræði Csikszentmihalyi verður starfið ekki eins huglægt, heldur afmarkaðra og það verður auðveldara fyrir kennara að vinna eftir stefnunni.
Myndun námsumhverfis
Þróunarverkefnið á m.a. að auðvelda starfsfólki að skapa námsumhverfi þar sem öllum börnum er mætt á þeirra forsendum. Það verður gert m.a. með því að skoða og greina námsumhverfi og samskipti. Þannig er börnunum gefið tækifæri til að hafa áhrif á eigið nám sem eykur gleði og sjálfstæði þeirra og kallar fram flæði. Flæði (e. flow) gengur út á að gefa börnunum tíma og rými til að fá að blómstra á sínu áhugasviði á sínum forsendum. Börnin hafa þá val um það sem þau gera og hvaða leikefni þau vilja nota en það leiðir af sér sjálfstæði og skapandi hugsun. Einnig er stefnt að því að innleiða aðferðafræðina Uppeldi sem virkar – Færni til framtíðar til að samræma uppeldis- og agastefnu á öllum deildum leikskólans.
Myndun starfslýsingar
Við erum ekki að kollvarpa neinu í okkar starfi heldur að draga fram þær starfsaðferðir sem hafa verið viðhafðar í Rauðhól frá upphafi. Því er okkar stefna að afurð þróunarverkefnisins Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar verði skýrari stefna og starfslýsing fyrir starfsfólk, börn og foreldra. Þannig eykst faglegt öryggi starfsfólks sem gerir því kleift að nýta styrkleika sína sem best í starfi, starfsánægja eykst og streita minnkar. Með því aukast líkur á að kalla fram flæði hjá starfsfólki. Einnig er stefnt að því að styrkja fagvitund starfsfólks svo það geti miðlað þekkingu sinni út á við til annarra í lærdómssamfélaginu. Ný stefna og starfslýsing getur nýst öðrum leikskólum sem vilja breytingu í takt við stefnur og strauma samfélagsins þar sem börnum er í auknum mæli gefin rödd og frelsi til þátttöku í ákvarðanatöku.
Gildi þróunarverkefnisins
Leikskólastarfið hefur verið farsælt síðastliðin 12 ár og hefur leikskólinn laðað að sér mikinn fjölda af fagfólki og öðru færu starfsfólki. Í lýðræðislegri kosningu starfsfólks um val á þróunarverkefni var kallað eftir skýrari lýsingum á faglegu hlutverki starfsfólks. Gildi verkefnisins er að dýpka leikskólann sem skólastofnun og geta skilgreint starfið betur. Því er mjög spennandi og áhugavert að kortleggja hugmyndafræði og samskipti kennarans við börnin í „Rauðhólsstefnunni“. Gestir sem hafa komið í heimsókn á Rauðhól hafa haft það á orði að börnin séu svo glöð í leikskólanum. Því er áhugavert að vita hvað það er í starfinu sem gerir það að verkum og þróunarverkefnið færir okkur ef til vill nær þeirri spurningu um leið og það hjálpar okkur að ná settum markmiðum.
Markmið þróunarverkefnisins er að:
- styrkja og þróa starfshætti leikskólans með því að innleiða aðferðafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæði (e. flow) og jákvæða sálfræði,
- allt starfsfólk öðlist frekari skilning á aðferðafræðinni og geti þar af leiðandi nýtt styrkleika sína sem best í starfi,
- greina og skapa námsumhverfi þar sem hverju barni er gefin rödd og því er mætt á eigin forsendum óháð kyni, uppruna, sérstökum þörfum og félagslegri stöðu.
Á Rauðhól leggjum við upp með að vinna sem lærdómssamfélag. Verkefnið er unnið af stjórnendateymi leikskólans ásamt öðru starfsfólki í þverfaglegum hópum. Stefnt er að því að nýta einnig raddir barnanna og vinna að rýnihópaviðtölum með foreldrum. Að auki öflum við okkur þekkingar hjá sérfræðingum/ráðgjöfum til að styrkja okkur faglega.