Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar

Leikskólinn Rauðhóll hlaut styrk frá skóla- og frístundaráði vorið 2018. Áherslur þróunarstyrkja að þessu sinni voru í samræmi við áhersluþætti sem fram komu í víðtæku samráði við mótun nýrrar menntastefnu borgarinnar en meðal annars er lögð áhersla á sjálfseflingu, vellíðan og skapandi hugsun barna.

Markmið Rauðhóls með þróunarverkefninu er að styrkja og þróa starfshætti leikskólans með því að innleiða aðferðafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæði og jákvæða sálfræði. Einnig er markmiðið að allt starfsfólk öðlist frekari skilning á aðferðafræðinni og geti nýtt styrkleika sína sem best í starfi. Markmiðið er líka að greina og skapa námsumhverfi þar sem hverju barni er gefin rödd og því er mætt á eigin forsendum óháð kyni, uppruna, sérstökum þörfum og félagslegri stöðu.

Með innleiðingu hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi um flæði (e. flow) er stefnt að því að styrkja starfshætti leikskólans Rauðhóls enn frekar.

Með þróunarverkefninu viljum við auðvelda starfsfólki að skapa námsumhverfi þar sem öllum börnum er mætt á þeirra forsendum. Það verður gert m.a. með því að skoða og greina námsumhverfi og samskipti. Þannig er börnunum gefið tækifæri til að hafa áhrif á eigið nám sem eykur gleði og sjálfstæði þeirra og kallar fram flæði. Afurð verkefnisins verður skýrari stefna og starfslýsing fyrir starfsfólk, börn og foreldra. Þannig eykst faglegt öryggi starfsfólks sem gerir því kleift að nýta styrkleika sína sem best í starfi, starfsánægja eykst og streita minnkar. Einnig getur ný stefna og starfslýsing nýst öðrum leikskólum sem vilja breytingu í takt við stefnur og strauma samfélagsins þar sem börnum er í auknum mæli gefin rödd og frelsi til þátttöku í ákvarðanatöku.

Í Rauðhól leggjum við upp með að vinna sem lærdómssamfélag. Verkefnið verður unnið af stjórnendateymi leikskólans ásamt öðru starfsfólki í þverfaglegum hópum. Við munum einnig nýta raddir barnanna og hafa rýnihópaviðtöl við foreldra. Við ætlum að auki að fá þekkingu sérfræðinga/ráðgjafa til að styrkja okkur faglega.